Á döfinni

Þýsk sálumessa 17.mars 2022

28.1.2022 | Mótettukórinn

Mótettukórinn tekur þátt í uppfærslu Sinfóníuhljómsveitar Íslands á hinni margrómuðu Þýsku Sálumessu Brahms ásamt Söngsveitinni Fílharmóníu.


„Sálumessan hefur haft dýpri áhrif á mig en nokkurt annað trúarlegt verk. Ég hef ekki fundið fyrir slíkri gleði lengi.“ Þannig ritaði Clara Schumann í dagbók sína eftir að hafa hlýtt á frumflutning á Þýskri sálumessu eftir Johannes Brahms, sem alla tíð síðan hefur verið talin eitt af öndvegisverkum trúarlegrar tónlistar á 19. öld. Sálumessan markaði tímamót á ferli tónskáldsins en er um margt óvenjuleg. Brahms valdi sjálfur texta úr Biblíunni fremur en að notast við texta hinnar hefðbundnu sálumessu. Blíð og líknandi nálgun hans er gjörólík því sem almennt tíðkaðist í sálumessum í konsertformi. Tónlistin er hrífandi samruni gamalla og nýrra strauma í tónlistinni, og áhrif barokkmeistaranna Bachs og Händels gefa verkinu aukna dýpt.


Einsöngvarar verða þau Emily Porgorelc og Jóhann Kristinsson.


Stjórnandi er Bertrand de Billy, aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem er fastagestur við flest helstu óperuhús heims og var um árabil aðalstjórnandi Útvarpshljómsveitarinnar í Vínarborg.

Fréttir

Jólin með Mótettukórnum 19.12.21

9.12.2021 | Mótettukórinn

Mótettukórinn heldur hina hefðbundnu jólatónleika sína sunnudaginn 19. desember kl. 17 í Fríkirkjunni í Reykjavík. Á efnisskránni verða uppáhaldsjólalög kórsins frá ýmsum tímum, meðal annars Betlehemsstjarnan eftir Áskel Jónsson, María fer um fjallaveg eftir Eccard, Guðs kristni í heimi, Hin fegursta rósin er fundin, Wexford Carol, Einu sinni í ættborg Davíðs, Jólagjöfin eftir Hörð Áskelsson, O magnum mysterium eftir Lauridsen og Ó, helga nótt eftir Adam.

Einsöngvari er Herdís Anna Jónasdóttir sópran, orgelleikari er Lára Bryndís Eggertsdóttir og stjórnandi Hörður Áskelsson.

Mótettukórinn mun að vanda leggja mikið í jólalega umgjörð tónleikanna og lofa má fallegri jólastemningu í Fríkirkjunni við Tjörnina í Reykjavík.

Einsöngvari á jólatónleikum

16.12.2021 | Mótettukórinn

Nú styttist í jólatónleikana okkar sem haldnir verða í Fríkirkjunni í Reykjavík næsta sunnudag, 19. desember, kl.17. Óvæntar breytingar hafa orðið en Herdís Anna Jónasdóttir, sópran, hleypur í skarðið fyrir Þórgunni Önnu Örnólfsdóttur sem átti að vera einsöngvari á tónleikunum. Þórgunnur forfallast því miður þar sem hún greindist með Covid og sendum við henni hlýjar kveðjur með ósk um góðan bata. Um leið og við söknum Þórgunnar erum við þakklát fyrir að fá aftur tækifæri til að syngja með Herdísi sem hefur margoft komið fram með Mótettukórnum í stórum einsöngshlutverkum og hlotið mikið lof fyrir. Nú síðast söng hún sópranhlutverk í Jólaóratóríu J.S. Bach sem Mótettukórinn flutti ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Reykjavík og einvala liði einsöngvara í Eldborgarsal Hörpu fyrr í desember. Efnisskrá jólatónleikanna í Fríkirkjunni verður hin sama og hlökkum við mikið til að syngja okkar uppáhalds jólalög fyrir ykkur

Fertugasta starfsárið

16.12.2021 | Mótettukórinn

Mótettukórinn og Listvinafélagið í Reykjavík fagna nú fertugasta starfsári sínu. Nýlega flutti kórinn ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni og fríðum flokki einsöngvara Jólaóratóríuna eftir J.S. Bach undir stjórn Harðar Áskelssonar í Eldborgarsal Hörpu við mikinn fögnuð. Þeir tónleikar voru teknir upp og munu hljóma í útvarpi allra landsmanna á jóladag. Síðustu tónleikar ársins verða svo sunnudaginn 19. desember kl. 17, en þá heldur Mótettukórinn sína hefðbundnu jólatónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þetta er í fyrsta sinn sem kórinn heldur þar jólatónleika og því tilvalið að bregða sér í bæinn og upplifa sannkallaða jólastemningu við Tjörnina. Á efnisskránni verða uppáhalds jólalög Mótettukórsins frá ýmsum tímum. Einsöngvari er Herdís Anna Jónasdóttir, sópran, Orgelleikari er Lára Bryndís Eggertsdóttir og stjórnandi Hörður Áskelsson.

Það hefur sannarlega verið áskorun að æfa og undirbúa tvenna tónleika í miðjum heimsfaraldri. En með samstilltu átaki og góðu skipulagi má áorka ýmsu. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn að lyfta andanum og hleypa smá birtu í hjartað. Heimsfaraldurinn hefur reynt á þrautseigju og þolinmæði þjóðarinnar og breytt lífinu svo um munar. Þær jólaperlur sem Mótettukórinn mun flytja á sinn einstaka hátt þann 19. desember nk. eru vel til þess fallnar að koma fólki í sannkallað hátíðarskap og gefa tækifæri til að gleyma sér um stund.

Jólaóratórían eftir J.S Bach I-IV

2.10.2021 | Mótettukórinn

Jólaóratórían eftir J.S. Bach verður flutt sunnudaginn 28. nóvember kl.17 í Eldborg.

Flutningurinn er í tilefni af upphafi fertugasta starfsárs Mótettukórsins og Listvinafélagsins í Reykjavík og 40 ára starfsafmæli Harðar Áskelssonar á Íslandi.

Flytjendur eru Mótettukórinn, Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík og einsöngvararnir Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Alex Potter kontratenór, Benjamin Glaubitz tenór og Jóhann Kristinsson bassi. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.

Tónleikarnir eru um 2 og 1/2 klst með hléi en fluttar verða fjórar fyrstu kantöturnar (I-IV af VI).

Mótettukórinn er fullur tilhlökkunar að flytja verkið nú í annað sinn í Hörpu en kórinn flutti allar 6 kantöturnar í nývígðri Hörpu á 30 ára afmæli sínu 2012.

Inntökupróf 2021

29.8.2021 | Mótettukórinn

Mótettukórinn leitar að fólki í allar raddir.

Smellið hér fyrir frekari upplýisngar


Vortónleikar í Langholtskirkju

5.3.2021 | Mótettukórinn

Efnisskrá tónleikanna má nálgast með því að smella hér!

Fluttar verða glæsilegar 5-8 radda mótettur og sálmavers eftir J.S. BACH og H. SCHÜTZ, útsetningar á Hallgrímssálmum eftir JÓN HLÖÐVER ÁSKELSSON og SMÁRA ÓLASON og orgelverk eftir J.S.BACH.

Meira

Mótettukórinn kveður Hallgrímskirkju

5.3.2021 | Stjórn Mótettukórsins

Sóknarnefnd Hallgrímskirkju hefur vikið Herði Áskelssyni úr starfi kantors Hallgrímskirkju. Hörður stofnaði Mótettukórinn árið 1982 og hefur leitt hann farsællega síðan, aukið veg kirkjutónlistar á Íslandi svo að um munar og skapað umgjörð um kórstarf sem hefur verið líf og yndi hundraða söngvara. Við þessi tímamót vill Mótettukórinn senda Herði kveðju sína og þökk, og segja honum að kórinn fylgi honum hvert á land sem er úr Hallgrímskirkju 31. maí, á vit þess sönglífs sem hann vill hafa forystu um að skapa.